Hugmynd úr skúffu

Hugmynd úr skúffu

Þegar staðið er í hreingerningum getur ýmislegt komið í ljós. Gamlir hlutir, minningar og líka drasl sem átti fyrir löngu að vera komið á haugana. Fór fjórar ferðir með endurnýtanlega hluti á kerru sl. sunnudag. Sumu var nú bara hent en annað fékk nýtt líf í endurvinnslugám Sorpu við Jafnasel. Komst upp með það að borga ekki krónu fyrir gamla eldhúsinnréttingu sem hafði verið komið fyrir í bílskúrnum af fyrri eigendum og notuð sem verkfærahirsla. Snúrur, kollar, afgangs timbur, bækur og annað drasl fékk að fjúka út í kerru. Á meðan lítil skúffa opnaðist fyrir hreina tilviljun birtist mér kunnugleg sýn. Þar lá þessi fallegi HD Floppy diskur sem var vel merktur litlu áhugamannafélagi. Teningur hugmyndahús. 

Þetta tiltekna hugmyndahús var stofnað með það að markmiði að koma hugmyndum úr kollinum á tveimur vinum svo hægt væri að festa ýmist bull og rugl á skráningarformi á netinu. Reyndar gengu höfundar undir dulnefnunum Rugludallur og Bullukollur. Félagið var staðsett að Hafnarstræti 19 í miðbæ Reykjavíkur og er víst enn skráð þar til húsa. Ég veit satt að segja ekki hvort að þetta hús er til eða ekki.

Einn daginn gekk þar inn glaðlegur maður og tjáði mér að hann hefði áhuga á að stofna flugfélag. Hefði búið víða og komið að rekstri fraktflutninga í áratugi. Hann fól mér það verkefni að teikna fyrir sig merki. Hann hafði ekkert gott að segja um auglýsinga- og markaðsfólk en heldur ekki slæmt. Hann var raunsær maður með alvarlegu ívafi en alltaf stutt í stórt og hlýlegt bros. Hann vildi að þetta yrði ekki blásið upp og fengi faglega meðferð. Ósk hans rættist og tók ég glaður við verkefninu. 

Þessi hugmynd sem stofnandinn fékk fór ekki hátt en hún varð að veruleika. Veruleika sem ég fékk að taka þátt í. Takk fyrir þetta tækifæri og traust. Mín var ánægjan.